Tuesday, March 12, 2013

Rólegir morgnar

 

 

 

 

Við vinkonurnar fórum á Löngumýri um síðustu helgi. Það var svo gaman, eins og venjulega. Kristrún og hennar konur eru alveg sérstakar og allt svo vel skipulagt og vel heppnað. Já og svo er bara alltaf svo mikið stuð á öllum. Við lærðum að sjálfsögðu alveg helling, fullt af litlum örnámskeiðum og allir að vinna einhver verkefni sem við hinar vildum sjá og læra líka.

Kristrún hefur líka alltaf gefið okkur einhverjar uppskriftir af einhverju skemmtilegu sem að við höfum auðvitað nýtt okkur. Einu sinni gaf hún okkur uppskrift af barna peysu sem er prjónuð að ofan, þ.e.a.s. byrjað að ofan. Ég keypti mér garn hjá henni um helgina í eina slíka peysu og varð auðvitað að byrja á henni, núna er peysan langt komin, en ég er ekki alveg viss hvað ég á að hafa hana langa. En það er í lagi því að ég er að fara á morgun að passa litla ömmukútinn minn og get þá mælt hvað ég á að gera mikið meira.

Annars er ég líka að reyna að klára ugluteppið mitt. Ég ætla að stækka það svolítið, eða um eina ugluröð, hafa semsagt 12 uglur í stað 9. Ég held að það verði fallegra í laginu og nýtist betur í vagn heldur en ef að ég hef bara 9 uglur þá er það ferkantað. En þá mundi það kanski nýtast betur ofan á barnastól ef að það er ferkantað. Svona er hægt að velta sér upp úr hlutunum alveg endalaust þangað til að maður kemst að einhverri niðurstöðu. Bara gaman.

Það er svo gaman að henni litlu kisu minni. Þegar að við erum að borða morgunmat þá liggur hún alltaf á mottunni í eldhúsinu og dormar á meðan við situm við eldhúsborðið. Svo þegar að Gunnar fer og ég sest inn í stofu með handavinnuna þá kemur hún og sefur annað hvort í glugganum eða á sófanum, en alltaf einhversstaðar rétt hjá mér þar sem að hún getur fylgst með mér. Þetta er yndislegt og gefur manni svo mikið að hafa þetta litla skott hjá okkur.

Síðasta myndin er af okkur vinkonunum í múderingunni okkar, svona komum við fram á föstudagskvöldinu. Þegar að við förum á Löngumýri gerum við alltaf eitthvað nýtt alveg gasalega smart ;) og skörtum því svo öllu saman í einhverjum fíflaskap.

Bestu kveðjur úr Borgarfirðinum

 

1 comment:

  1. HAHAHA þið eruð nú meiri prakkararnir! Æðisleg myndin af ykkur :)

    Uglu teppið er svo litríkt og flott og ömmuprinsinn elskar nýju peysuna sína, þó hún sé ekki tilbúin. Ég veit þetta því hann hvíslaði þessu að mér í dag ;)

    ReplyDelete